Steindir gluggar

Steindur gluggi í kirkjuskipi Áskirkju:

Steindi glugginn í stafni kirkjuskips sem vígður var árið 2008 á 25 ára vígsluafmæli Áskirkju er kostaður af Gluggasjóði kirkjunnar sem notið hefur góðs af fjölmörgum fjárframlögum velunnara kirkjunnar. Hönnun hans var í höndum Valgerðar Bergsdóttur mynlistarkonu. Starfsmenn Dr. H. Oidtmann í Linnich í Þýskalandi settu gluggann upp. Í glugganum má m.a. virða fyrir sér atriði sem tengjast ævi og starfi Péturs postula.

Steindu „Coventry” eða ensku kirkjugluggarnir í Áskirkju:

Staðsettir á milli safnaðarsals og anddyris:
Mjór gluggi sýnir St Peter.
Mjór gluggi sýnir St Paul.
Breiður gluggi sýnir St Peter and St Paul.
Breiður gluggi sýnir St Jude and St Thomas.

Staðsett í kapellu:

Breiður gluggi sýnir Krist umvafin fólki í neyð (gæti táknað endurlífkun Krists á hinni 12 ára dóttur Jairus). Með áletrunni “Come unto me all ye that labour and are heavy laden, and I will give you rest”.

Í geymslu:
Breiður gluggi sýnir Maríu mey standandi.
Breiður gluggi sýnir konu grípa um stóran kross. Með áletrunni “Simply to Thy Cross I cling”.

Ráðgáta steindu “Coventry” glugganna

Hjónin Óli Ísakson og listakonan Unnur Ólafsdóttir höfðu lagst í þá tómstundaiðju að safna listaverkum og þá sérstaklega kirkjulist. Margir af mununum Unnar eru nú í eigu Áskirkju (1984). Meðal þeirra eru 7 steindir gluggar. Lengst af var talið, bæði hér á landi og í Bretlandi, að uppruni glugganna væri úr eldri Dómkirkju St. Michael’s í Coventry sem síðar var að mestu jöfnuð við jörðu í mannfallsmikilli loftárás þjóðverja árið 1940. Eitthvað af gluggum kirkjunnar hafði verið komið til varðveislu í stríðinu til að varna því að þeir skemmdust.

Og gluggarnir voru lengi vel álitnir gleymdir, tíndir . Þar til þeir dúkkuðu upp hér á landi. Árið 1942, áttu íslenskir útgerðabræður að nafni Helgi og Kristján Gylfi Zoega ásamt föður þeirra, í viðskiptum við bresk fyrirtæki og stjórnvöld. Þeir höfðu komið á dekkhlöðnu fiskiskipi til Englands til þess að selja aflan og á sama tíma keypt frá fornmunasala í London, steinda glugga sem söluaðilinn sagði að væri úr hinni föllnu Dómkirkju í Coventry og flutt með sér heim. Tvíburabræðurnir ráku einnig forn- og listmunaverslun í Aðalstræti í Reykjavík þar sem Unnur og Óli munu hafa keypt sýna glugga.

Árið 2010 var frumsýnd heimildarmyndin „Saga af stríði og stolnum gersemum“ í leikstjórn Hjálmtýr Heiðdal sem fjallar um sögu og uppruna glugganna eins og hún var talin í fyrstu.

Þessir fallegu gluggar, sem fyrst í stað voru í einkasöfnum á Íslandi, voru taldir í um 70 ár vera úr Dómkirkjunni í Coventry. Breska kirkjan, sem síðar fékk veður af þessari eign Íslendinga, gaf þá út þá yfirlýsingum að hún myndi ekki krefjast þess að gluggunum yrði skilað ef þeim væri komið fyrir í kirkjum á Íslandi. Sjá viðtal við Kenyon Wright starfsmann Dómkirkjunnar í Coventry árið 2009. Gluggana má í dag finna í Áskirkju, Akureyrarkirkju og hugsanlega líka enn í einkasöfnum á Íslandi.

Árið 2014 kom út önnur heimildamynd, „Coventry Cathedral stained glass windows mystery“, nú frá BBC, þar sem því er haldið fram að ólíklegt sé að gluggarnir góðu á Íslandi komi úr Dómkirkju Coventry heldur frá nokkrum mismunandi kirkjum á Englandi og að fornmunasalinn sem seldi íslensku bræðrunum steindu gluggana hafi einfaldlega logið til þess að fá hærra verð fyrir þá.

Hver svo sem uppruni þessara steindu kirkjuglugga frá viktoríutímabilinu er, þá er ljóst að þeir eru með fallegri eigum kirkjunnar og ekki er heldur leiðinlegt að uppruni þeirra skuli vera sveipaður slíkri dúlúð.

Áskirkja