Kirkjumunir

Helstu kirkjumunir, skrúði og altarisklæði.

Stór trékross úr ljósu birki, smíðaður af Gamla kompaníinu.

Altarisstjakar gerðir af Björgvini Svavarssyni.

Predikunarstóll, hannaður af Haraldi V. Haraldssyni, arkitekt.

Lesstóll á altari.

Tveir kristalvasar útskornir á altari.

Guðbrandsbiblía á borði úr ljósu beyki.

Sjöarmastjaki á borði úr ljósu beyki.

Lespúlt / lektari úr ljósri eik.

Fjórir hátíðarstólar með háu baki, grind úr ljósu beyki og rautt ullaráklæði.

Skírnarskál, smíðuð af Georg Jensen, eftir teikningu Gísla Kristjánssonar, undirstaða skálarinnar er hönnuð af Haraldi V. Haraldssyni, arkitekt.

Kaleikur, gerður af Einari Esrasyni.

Kaleikur, gerður af Pétri Tryggva Hjálmarssyni.

50 Sérbikarar, framleiddir í Danmörku.

Hjónin Unnur Ólafsdóttir, kirkjulistakona og Óli M. Ísaksson sem bjuggu á Dyngjuvegi 4, voru miklir velunnarar Áskirkju og eru ófáir þeir gripir úr búi þeirra hjóna sem þau ýmist hafa gefið kirkjunni eða sóknarnefnd hefur keypt. Fundarherbergi kirkjunnar ber gjöfum þeirra hjóna fagurt vitni. Sem dæmi um hugverk og handavinnu Unnar sem nú eru í eigu Áskirkju má nefna:

Altarisklæði og forklæði á predikunarstól, í litum kirkjuársins, hannað af Unni Ólafsdóttur og unnið af Ásdísi Jakobsdóttur.

Altarismynd, krossfesting Krists, notuð á Föstudaginn langa, eftir Unni Ólafsdóttur.

Höklar, hvítur, grænn, fjólublár og svartur, ásamt meðfylgjandi stólum, hannað af Unni Ólafsdóttur og unnið af Ásdísi Jakobsdóttur.

Hökull, rauður, hannaður og baldíraður af Unni Ólafsdóttur.

Altaristafla / helgimynd, byggð á 42. Davíðssálmi, “Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð” , eftir Unni Ólafsdóttur.

Altaristafla / helgimynd, Fangamark Krists, eftir Unni Ólafsdóttur

Helgimynd, Kristur og postularnir, hver með sitt tákn, eftir Unni Ólafsdóttur.

 

Saga sem tengist gerð altaristöflu Áskirkju.

Altaristaflan vinstra megin í kirkjuskipi Áskirkju er byggð á 42. Davíðssálmi “Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð. Eins og fram kemur hér að framan er altaristafla þessi gerð af Unni Ólafsdóttur, kirkjulistakonu og er gjöf Unnar og eiginmanns hennar Óla M. Ísakssonar til Áskirkju.

Hér kemur sagan:

Þegar kapella Háskóla Íslands var tilbúin undir tréverk hélt Unnur Ólafsdóttir sýningu þar á listaverkum sínum, sem flest tengdust kirkjulistvefnaði. Meðal sýningargripa var altaristaflan.

Mæðgurnar Ingigerður Einarsdóttir og dóttir hennar Sigríður Helgadóttir, sem er heimildarmaður sögu þessarar, sóttu sýninguna og tóku Unni tali og sagði hún þeim eftirfarandi sögu.

Þegar Unnur var að ljúka við gerð myndarinnar sem var með sætum fyrir 42 steina umhverfis krossinn í myndinni ( tilvísun til 42 Davíðssálms) hugleiddi hún mikið hvers konar steina hún ætti að nota til að prýða myndina sem best. Ekki komst hún að endanlegri niðurstöðu, þótt hún hallaðist helst að gimsteinum.

Um það leyti kom í heimsókn til hennar Guðmundur Einarsson frá Miðdal og barst gerð myndarinnar og skreyting hennar í tal. Kom þá í ljós að fyrir allmörgum árum fann Guðmundur mjög sérstæða steina í Glerhallavík og ætlaði hann að nota þá til að skreyta skartgripaskrín fyrir konu sína Lydíu. Fór hann með umrædda steina til gullsmiðs í því skyni. En áður en af smíði skrínsins varð andaðist gullsmiðurinn og steinarnir voru því ekki notaðir. Kvaðst Guðmundur reiðubúinn að gefa Unni steina þessa ef henni litist á þá. Þegar nánar var að gáð kom í ljós að steinarnir voru 42 að tölu og prýða þeir nú krossinn í altaristöflunni, fagurlega slípaðir.  Skráð október 2005 af Hafþóri Jónssyni, kirkjuverði, skv. frásögn Sigríðar Helgadóttur.

Áskirkja