Saga safnaðarfélagsins

Saga Safnaðarfélagsins hófst með Kvenfélagi Ásprestakalls.

Kvenfélag Ásprestakalls var stofnað 24. febrúar 1964 og voru stofnfélagar 99 talsins. Fram til ársins 1968 voru félagsfundir haldnir í Safnaðarheimili Langholtssóknar. Meðal þess sem félagið tók sér fyrir hendur fyrstu árin var fótsnyrting fyrir aldraða og var sú aðstaða í Holtsapóteki, jólaskemmtanir fyrir börn voru haldnar í Laugarásbíói og sendar voru jólagafir til einstæðinga á Hrafnistu og á Kleppsspítala.

Einnig stóð kvenfélagið fyrir fjáröflunum með kaffisölu, bingó, bösurum o.fl. Með aðstoð Bræðrafélags Ásprestakalls var keypt húseignin Hólsvegur 17, árið 1968 og var því gefið nafnið Ásheimilið. Þar átti kvenfélagið sitt blómaskeið. Þar var starfað að fótsnyrtingu, basarundirbúningi og þar voru félagsfundir haldnir. Einnig var þar opið hús fyrir aldraða og haldin voru ýmis námskeið.

Á þessum árum var keyptur sá borðbúnaður sem við búum að enn í dag, einnig fermingarkyrtlar o.fl. Árið 1974 var Ásheimilið selt og gekk andvirði þess til kirkjubyggingarinnar. Fyrsti formaður kvenfélagsins var Guðrún S. Jónsdóttir, þáverandi prestsfrú og stýrði hún félaginu í 10 ár. Þá tók við formennsku Kristín Hinriksdóttir og leiddi hún félagið í tvö ár, eða þar til það var lagt niður og nafni þess breytt í Safnaðarfélag Ásprestakalls.