Safnaðarfélag Ássóknar

Eins og sjá má nánar hér til hægri í sögu safnaðarfélagsins var Kvenfélagi Ásprestakalls breytt í Safnaðarfélag Ásprestakalls hinn 16. maí 1976 og fengu þá karlmenn jafnt sem konur inngöngu í félagið. Samkvæmt 2. grein laga safnaðarfélagsins er tilgangur þess að styrkja og styðja kirkjulegt starf í Ásprestakalli svo og önnur menningar- og mannúðarmál innan sóknarinnar.

Félagar í safnaðarfélaginu geta orðið allir íbúar í Ásprestakalli, karlar og konur. Einnig þeir sem stuðla vilja að málefnum og framgangi félagsins, þó þeir séu búsettir annars staðar. Ef þig langar til að styrkja starf félagsins þá þarft þú að láta skrá þig hjá stjórn félagsins og greiða árlegt félagsgjald. Sjötíu ára og eldri greiða ekki félagsgjald nema þeir óski þess sjálfir.

Fjáröflun: Safnaðarfélagið notar ýmis tækifæri til að afla fjár  bæði til kirkjunnar og félagsstarfsins. Þar má m.a. nefna spilakvöld, hlaðborð, vöfflukaffi, basar- og nytjamarkaður, laufabrauðsgerð og vorferð. Einnig hefur safnaðarfélagið útbúið minningarkort til styrktar félaginu sem fást hjá kirkjuverði Áskirkju.

Styrkir frá safnaðarfélaginu:   Félagar í Safnaðarfélaginu hafa verið máttarstólpar í öllu kirkju- og safnaðarstarfi og hafa með fjáröflun sinni, allt frá stofnun félagsins, fært kirkjunni ýmsar veglegar gjafir. Með fjáröflunarfé hefur safnaðarfélagið m.a. keypt fellihurð þá sem skilur að safnaðarheimili og kirkjuskip, kaleik og 30 sérbikara til að nota við altarisgöngur einnig gefur það fermingarbörnum áritaðar Biblíur. Flygill og felligardýnur í efri safnaðarsal kirkjunnar eru einnig meðal styrkja.

Aldraðir gleymast ekki og félagið sendir bíl til allra dvalarheimila og stærstu fjölbýlishúsa í sókninni til að auðvelda fólki að komast til kirkju. Einnig býður safnaðarfélagið öldruðum íbúum í sókninni í veglegt kaffisamsæti á degi aldraðra (á Uppstigningardegi). Kirkjudagur safnaðarfélagsins er í mars og félagsfundir eru að jafnaði haldnir einu sinni í mánuði frá október til maí og þá er leitast við að hafa eitthvað efni til skemmtunar og fróðleiks.

Eftirtalin hafa gengt stöðu formanns í Safnaðarfélagi Ásprestakalls:

Guðrún S. Jónsdóttir 1976-1981, Helga Guðmundsdóttir 1981-1984, Róbert Sigurðsson 1984-1985, Guðrún Magdalena Birnir 1985-1992, Hafþór Jónsson 1992-1996, Þóranna Þórarinsdóttir 1996-2005, Lára Axelsdóttir frá 2005–2008, Jóhanna Friðriksdóttir frá 2008-2016.  Núverandi formaður (2016) er Petrea Ómarsdóttir.

Aðalfundir Safnaðarfélags Ásprestakalls eru haldnir árlega, gjarnan í febrúar.