Fréttir

Myndir frá haustferð eldri borgara

Hér gefur að líta myndir frá afar velheppnaðri eldri borgaraferð Ás- og Laugarneskirkju, sem farin var 21. október s.l. Alls tóku um fjörutíu manns þátt í ferðinni, enda afar vel þegið að komast í skemmtiferð eftir allt það sem á undan hefur gengið.
Ferðinni var heitið á Álftanes þar sem snæddur var dýrindis hádegisverður á Álftanes Kaffi. Að því loknu var haldið í Bessastaðakirkju þar sem sr. Hans Guðberg Alfreðsson prófastur í Kjalarnessprófastdæmi var með stutta helgistund og sagði okkur sögu kirkjunnar. Anna Sigga Helgadóttir söng elsta sálm okkar Íslendinga Heyr himna smiður eftir Kolbein Tómasson en undirspilið annaðist Bjartur Logi Guðnason, organisti í Áskirkju og fyrrverandi organisti í Bessastaðakirkju. Þessi stund var einkar hugljúf.
Hópurinn var svo heppinn að njóta gestrisni hr. Guðna Th. Jóhannessonar forseta sem bauð okkur í kaffi og kleinur auk skoðunarferðar um húsakynnin á Bessastöðum. Ennfremur fengum að líta Bessastaðastofu, sem fáir höfðu heimsótt áður.
Það voru saddir og sælir eldri borgarar sem héldu að þessu loknu í Garðakirkju en þá tók sól að skína. Þar nutum við þess að hlýða á sr. Henning Emil Magnússon prest í Vídalínskirkju segja okkur frá tilurð og sögu kirkjunnar.
Á heimleiðinni kom hópurinn við í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi. Þar fengum við leiðsögn frá Sigríði Sigurjónsdóttir safnstjóra um sýningu á verkum Kristínar Þorkelsdóttur myndlistarmanns og Högnu Sigurðardóttir arkitekts. Stórskemmtileg og áhugaverð sýning og urðum við margs vísari.
Það var glaður hópur sem skilaði sér að lokum í Áskirkju um sexleytið.
Við þökkum fyrir dásamlega ferð og skemmtilegar minningar sem hún skapaði.
Guð blessi ykkur ávallt.
Kærleikskveðja, Jóhanna María djákni og Anna Sigga.