Fréttir

Útvarpsguðsþjónusta í Áskirkju á boðunardegi Maríu, 29. mars 2020 – Sjá vefslóð og prédikun:

https://www.ruv.is/utvarp/spila/gudsthjonusta/24228/7hi3db

 

Prédikun við útvarpsguðsþjónustu í Áskirkju sunnudaginn 29. mars 2020

Boðunardagur Maríu

Jóhanna María Eyjólfsdóttir, djákni

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í vikunni sem leið horfði ég á frétt BBC á veraldarvefnum sem sagði frá lífinu í þorpinu Eyam í Mið-Englandi nú á tímum kórónaveirunnar. Þorpið á sér merkilega sögu sem þorpsbúar hafa lifa með í gegnum aldirnar. Fyrir meira en 350 árum tók mannskæð plága sér bólfestu í þorpinu, eftir að hafa borist þangað með fatnaði frá höfuðstaðnum London. Eftir margra mánaða baráttu og fjölda dauðsfalla ákvað sóknarpresturinn að þorpið yrði sett í sóttkví til að hefta frekari útbreiðslu plágunnar á Englandi. Það tókst en fórnarkostnaðurinn var sá að 2/3 þorpsbúa dóu og fórnuðu þar með lífi sínu í þeim samfélagslega tilgangi að vernda aðra landsmenn. Í þá daga voru engar Almannavarnir, Sóttvarnalæknir né Landlæknir að störfum heldur var það sóknarpresturinn sem tók að sér þau ábyrgðarmiklu hlutverk. Hann byggði ákvörðun sína á boðskap Jesú Krists um náungakærleikann. Gullnu regluna þekkja flestir en hana er að finna í Matteusarguðspjalli og þar segir: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matt. 7:12). Gullna reglan er meginundirstaða kristinnar siðfræði og ein af frumskyldum kristinna manna er að ganga skilyrðislaust fram fyrir skjöldu, rétta öðrum hjálparhönd og láta gott af sér leiða.

Eftir að kórónaveiran fór að herja á Bretland er eftir því tekið að þorpsbúarnir í Eyam heyja baráttuna gagnvart þessum vágesti með velferð náungans að leiðarljósi og sýna mikla ósérhlífni í því að hlú hver að öðrum og halda samfélaginu gangandi með tilliti til aðstæðna. Kirkjan gegnir þar lykilhlutverki og skipuleggur meðal annars matargjafir til þeirra sem eru í sóttkví. Það snart mig að hlusta á viðtal við 95 ára gamla konu sem er alin upp í þorpinu þar sem hún var að gefa fuglunum æti. Hún sagði að það að gefa náttúrunni gaum og hugsa um dýrin væri hennar framlag í baráttunni og ennfremur leið til að halda huga sínum uppteknum frá áhyggjum af afleiðingum veirufaraldursins!

Í dag eru tvær vikur þar til sjö vikna föstunni lýkur. „Og þrátt fyrir að ekkert sé að virka í þjóðfélaginu og jafnvel heiminum öllum, eins og venjulega“, séu orð helsta baráttufólks okkar gegn kórónaveirufaraldrinum notuð, hefur kirkjuárið ekki færst úr stað. Dagarnir líða einn af öðrum, sólin rís að morgni og sest að kvöldi og vorboðinn, sjálf lóan er komin, jafnvel aðeins fyrr en í meðalári.

Upp, upp mín sál og allt mitt geð,

upp mitt hjarta og rómur með,

hugur og tunga hjálpi til,

Herrans pínu ég minnast vil.

Á þennan veg yrkir Hallgrímur Pétursson í Passíusálmunum sem við lesum daglega á föstunni. Franska orðið sem notað er fyrir lönguföstu er caréme og þýðir einangrun eins og enska heitið quarantine sem er notað yfir sóttkví og við heyrum oft notað um þessar mundir. Skyldi það vera tilviljun að á sama tíma og tilmæli almannavarna kveða á um sóttkví séum við á föstutímabilinu í kirkjuárinu? Fasta er eitt elsta form andlegrar iðkunar og finnst í öllum trúarbrögðum. Hlutverk föstunnar í trúarlífinu er meðal annars að beina athyglinni frá sjálfum sér og að Guði og náunganum. Þessar áherslur fara vel með hversdagslífinu sem okkur er ætlað að lifa á tímum samkomubanns og núna er ákjósanlegt tækifæri til að dýpka og þroska trúarlíf sitt og samfélag við Guð. Margir velja að leggja stund á núvitund en ástundun bænalífs og samfélags við Guð er núvitund í sinni tærustu mynd, sem gefur af sér frjóan ávöxt og styrkir mennskuna í okkur.

Í dag er fimmti sunnudagur í föstu og þá minnumst við boðunardags Maríu sem var 25. mars síðastliðinn. Boðunardagurinn er 9 mánuðum fyrir fæðingardag Jesú Krists en guðspjall dagsins er úr Lúkasarguðspjalli og segir frá því þegar Gabríel erkiengill fór til Nazaret þar sem María bjó. Hann flutti henni boð frá Guði þess efnis að hún hefði hlotið náð Guðs og myndi ala son Hins hæsta. Guð hefði getað ákveðið að senda son sinn til mannanna með ýmsum hætti en hann kaus að velja Maríu sem spámanninn til að bera Orð Guðs í heiminn. Maríu frá Nazaret, sem var fátæk alþýðukona frá fábreyttu heimili og um það leyti föstnuð Jósef sem var trésmiður. Guð fann sér þarna farveg inn í mannlegt líf í gegnum líf venjulegrar ungrar stúlku. María var forsenda þess að kærleikur Guðs gat komið til jarðarinnar á áþreifanlegan hátt. María varð farvegur Guðs til okkar mannanna.

En það lá ekki í augum uppi að María þekktist boð Guðs. Hún varð að vonum óttslegin við fréttirnar sem Gabríel bar henni og svaraði ekki hiklaust játandi heldur leitaði skýringa hvernig þetta mætti verða? Sönnunin að þetta skyldi verða var fyrir Maríu þegar Gabríel sagði henni að Elísabet, frænka hennar sem var óbyrja, væri orðin þunguð. Þá ákvað María að játast kalli Guðs, og öðlaðist kjark til að taka á móti heilögum anda inn í líf sitt. Hún var við krossinn þegar Jesús dó og meira en það, hún var einn af mikilvægustu stöplum þeirrar kirkju sem átti upphaf sitt á páskadagsmorgunn.

En veltum fyrir okkur hver táknmynd Maríu Guðsmóður er og hvaða hlutverki hún gegnir í kristindóminum.

Hjá rómversk-kaþólskum var Maríudýrkun iðkuð í gegnum aldirnar og hún jafnvel sett á stall við hlið Guðs, sem óflekkuð og heilög. María gegnir einnig merku hlutverki meðal múslima. Samkvæmt lúterskum skilningi er María guðsmóðir ein af okkur – hún er ímynd mannlífs og kirkju. Hún er fyrirmynd í því hvernig hún af auðmýkt þáði náð Guðs og tók á móti Orði hans í líf sitt. Eins og hún, þá njótum við náðar Guðs og ávaxtanna í okkar daglega lífi.

María Guðsmóðir, er ennfremur móðurímyndin okkar. Hún er mamma mín og mamma þín. Hún elskar okkur skilyrðislaust og stendur með okkur í blíðu og stríðu. Hún verndar okkur og víkur aldrei frá okkur. Hún er móðirin sem fer með okkur í gegnum þjáningarnar, styður okkur og styrkir. Hún er móðirin sem lifir í okkur um ókomin ár, yljar okkur og skilur okkur á þann hátt sem enginn annar gerir. María er einnig samheiti yfir allar konur, hún er formóðirin, dóttir, eiginkona, systir og vinkona.

María er líka táknmynd Móður jarðar. Í listasögunni í gegnum aldirnar er hún alltaf íklædd einhverju bláu. Blái liturinn táknar mennskuna en einnig náttúruna; himininn og hafið. Líkt og María mey gat af sér Jesú erum við afkvæmi jarðarinnar. Maðurinn er órjúfanlegur hluti af lífkerfi jarðarinnar. „Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða. Af jörðu munt þú aftur upp rísa.“. Þessi orð heyrum við presta fara með við útfarir en þau eiga sér stoð í 1. Mósebók.

Jörð þín liggur

í landi tímans.

 

Í sama reitnum lifir

ljós og myrkur.

Í sömu moldu sprettur

sumar og vetur.

 

Sáir þú ljósi?

 

Syngur jörð þín

birtuskær vorljóð

eða haustsöngva

skuggahljótt?

 

Hjarta,

þú sáir rökkvi,

 

uppsker nótt.

 

Þetta ljóð ber heitið Eins og þú sáir og er eftir Þorgeir Sveinbjarnarson. Við uppskerum eins og við sáum, segir í Ritningunni, og við erum verkamenn í víngarði Drottins sem fól okkur jörðina til ræktunar og nýtingar. En þeirri ábyrgð fylgir sú skylda að sýna henni alúð, varkárni og góða umgengni og þar hefur okkur mannfólkinu illilega fatast flugið á síðustu áratugum. Við höfum gleymt okkur í neysluhyggjunni og flotið sofandi að feigðarósi. Andri Snær Magnason rithöfundur hefur látið sig umhverfismálin varða og kveðið fast að orði í þeim efnum. Um það ber nýjasta bók hans, Um tímann og vatnið vitni. Í umræðu um kórónaveiruna nýlega sagði hann meðal annars: „Læknavísindin eru að segja frá þessari veiru og afleiðingarnar koma fram eftir viku, ef þú færð veiruna ertu veikur eftir viku. En það sem loftslagsvísindin hafa verið að rannsaka og mæla eru jafn föst vísindi en þar eru afleiðingar sem koma fram á miklu lengri tíma. Það er eins og við eigum erfitt heimspekilega með að samsama okkur árinu 2070 og því sem kemur fram á miklu alvarlegri hátt en ein veira innan líftíma okkar barna.“

Á undanförnum vikum hefur þjóðin sýnt samheldni, samstöðu og samhjálp svo eftir hefur verið tekið um heimsbyggðina. Á sama hátt getum við mætt aðsteðjandi umhverfisvanda og hnattrænni hlýnun. Snúið saman bökum, breytt neysluhegðun og bætt umgengni okkar með hag náttúrunnar og framtíð barnanna okkar að leiðarljósi. Það er mikilvægt að reyna að koma auga á það jákvæða í þeim hremmingum sem nú skekja heimsbyggðina. Kórónaveirufaraldurinn hefur fært okkur nær hvert öðru, sama hvar á jarðarkringlunni við búum. Við eigum sameiginlegan óvin og hjálpumst að með því að deila þekkingu okkar og reynslu svo við séum betur í stakk búin til að ráða niðurlögum veirunnar og lágmarka dauðsföll af völdum hennar. Þessi reynsla gæti orðið til þess að heimsbyggðin myndi snúa bökum saman í baráttunni gegn umhverfisvánni.

Í upphafi sagði ég ykkur söguna frá Eyam. Stærsti lærdómur þorpsbúanna í kjölfar plágunnar var að þeir lærðu að kærleikur, ást og umhyggja væru undirstaða góðs samfélags. Þessir eiginleikar koma skýrt fram í viðbrögðum þorpsbúa við faraldrinum sem nú geisar. Alma Möller landlæknir hefur lagt áherslu á að við séum öll í þessari baráttu saman og hún voni að fólk sýni hvert öðru náungakærleik. Siðaboðskapur kristinnar trúar á sjaldan eins vel við og nú og gegnir lykilhlutverki í því að draga úr og hægja á smituninni.

Nú þegar nýjustu kannanir sýna auknar áhyggjur og kvíða á meðal þjóðarinnar er lausn falin í því að finna styrk í pistli dagsins. Hann er úr Opinberunarbókinni og minnir okkur á að Guð er mitt á meðal okkar í þjáningunni, huggar okkur og styrkir. Leggjum verkefnin og líf okkar í hendur Drottins og hann mun vel fyrir sjá. „Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ Þessi orð er að finna í 6. kafla Matteusarguðspjalls og kenna okkur að vera æðrulaus og lifa í núinu, allt annað er í Guðs hendi.

Og eins og Guð valdi Maríu til að verða þunguð og fæða frelsarann í heiminn hafa sóttvarnaryfirvöld valið okkur til að vera Almannavarnir. Slagorðið Við erum öll almannavarnir, vísar til ábyrgðar okkar sem kristinna manna að elska náunga okkar eins og sjálf okkur. Öxlum þá ábyrgð og biðjum þess að ljós Guðs vísi okkur veginn áfram. Orð flóttamanns frá Sýrlandi fanga þetta í einni setningu: „Ég trúi því að samstaða og samkennd sé meginskylda hverrar manneskju sem býr á jörðinni.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið hinni postullegu kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.