Fréttir

FERMINGARFRÆÐSLA í Áskirkju: Skráning fyrir veturinn 2024-2025

SKRÁNING Í FERMINGARFRÆÐSLU Í ÁSKIRKJU næsta vetur er hafin. Unnt er að skrá börnin rafrænt á hlekknum https://forms.gle/dmJ9vHaqGApaEF588.

Fermingarfræðsla safnaðanna við Laugardal stendur öllum unglingum í 8. bekk til boða, óháð trúfélagsstöðu, hvort sem ferming um vorið er ákveðin eða ekki.  Fermingarfræðsla ásamt skírn er hins vegar nauðsynlegur undanfari fermingarinnar, enda er hún staðfesting skírnarinnar.

Þegar barnið er skráð skal færa inn auk annarra upplýsinga:
a. Hvar barnið óskar að sækja fermingarfræðslu.
b. Í hvaða kirkju barnið óskar eftir að fermast.
c. Ósk um fermingardag ef vill.

Helstu markmið fræðslunnar eru:
– Að efla almenna þekkingu á kristinni trú.
– Að vekja börnin til umhugsunar um eigin lífsskoðanir.
– Ræða og æfa leiðir til að efla andlega heilsu með íhugun og bæn.
– Að gefa börnunum tækifæri til að kynnast starfinu í kirkjunni sinni.

Fermingarfræðslan fer fram vikulega frá miðjum september 2024 og fram að fyrstu fermingu vorsins 2025. Auk þess er farið í Vatnaskóg í haust og dvalið þar í sólarhring við fræðslu, skemmtun, leiki og útiveru.
Þátttaka í helgihaldi kirkjunnar er einn mikilvægasti hluti fermingarundirbúningsins. Því er mælst til þess að börnin sæki guðsþjónustur ekki sjaldnar en tíu sinnum yfir veturinn, – en það má að sjálfsögðu mæta oftar! 🙂 Minnt er á mikilvægi þess að einhver fullorðinn fylgi barninu reglulega til kirkju. Því er hvatt til þess að þið virkið fjölskylduna, skírnarvotta, afa og ömmur, frænkur og frændur til að koma með barninu. Messað er í Áskirkju alla sunnudaga  kl. 13:00.
Kostnaður vegna fermingarfræðslunnar er:
– Fræðslugjald samkvæmt gjaldskrá Prestafélags Íslands.
– Gjald fyrir leigu á fermingarkyrtli.
– Að auki innheimtir Vatnaskógur gjald fyrir þátttöku í fermingarnámskeiði.
Fermingardagar í Áskirkju vorið 2025 eru þessir:
– Pálmasunnudagur, 13. apríl kl. 13:00.
– Fyrsti sunnudagur eftir páska, 27. apríl kl. 13:00.
– Hvítasunnudagur, 8. júní kl. 13:00.