Saga Áskirkju

Ássöfnuður var stofnaður á fundi í Laugarásbíói 22. september árið 1963 og á þeim fundi var fyrsta sóknarnefndin kjörin. Samkvæmt skráðum heimildum voru helstu rökin fyrir stofnun Ásprestakalls þau að innan marka þess voru þá búsettir 4000 íbúar og fjölmennt elliheimili, Hrafnista, var risið og stækkun þess fyrirhuguð. Einnig var ráðgert að reisa fleiri íbúðir og þjónustustofnanir fyrir aldraða í sókninni. Auk þess var stórt sjúkrahús, Kleppsspítali, í prestakallinu. Eðlilegt þótti að tengja brýna prestsþjónustu á þessum stofnunum hóflega stórri sókn, en sóknirnar beggja vegna sóknarmarkanna þóttu of fjölmennar til að bæta slíkri þjónustu á þær.  Hjúkrunarheimilið Skjól hefur bæst við þjónustu Áskirkju, ásamt þjónustuíbúðum aldraðra á Dalbraut 21-27 og Norðurbrún 1.

Fyrstu árin voru guðsþjónustur safnaðarins í Laugarneskirkju og í Laugarásbíói, en síðasta áratuginn fyrir vígslu Áskirkju voru guðsþjónusturnar í Norðurbrún 1.

Eftirtaldir sóknarprestar hafa þjónað Ásprestakalli:

  • Sr. Grímur Grímsson, frá 1964 til 1980.
  • Sr. Árni Bergur Sigurbjörnsson, frá 1980 til 2005.
  • Sr. Sigurður Jónsson, frá 2006.
  • Sr. Þórhildur Ólafs var sett sóknarprestur frá 2003 til 2005 í veikindaleyfi sr. Árna Bergs og eftir andlát hans í september 2005 til aprílloka 2006.
  • Sr. Karl V. Matthíasson, þjónaði sem prestur í hlutastarfi frá 2003 til 2006 með hléum.
  • Sr. Sigurður Jónsson, núverandi.

Bygging Áskirkju

Sr. Grímur Grímsson, þáverandi sóknarprestur, tók fyrstu skóflustunguna að grunni Áskirkju 16. september 1971.

Kirkjan er byggð eftir teikningu arkitektanna Helga Hjálmarssonar, Vilhjálms Hjálmarssonar og Haraldar V. Haraldssonar og hefur Haraldur annast alla hönnun hússins innan dyra og er öll sérsmíði innréttinga og ýmiss búnaðar hugverk hans.

Teiknistofan Óðinstorg annaðist verkfræðiþjónustu, en stofuna starfrækja Vífill Oddsson og Hilmar Knudsen ásamt arkitektunum Helga og Vilhjálmi Hjálmarssonum. Þess má einnig geta að Vífill Oddsson var lengst af formaður bygginganefndar Áskirkju.

Eftirtaldir iðnmeistarar stjórnuðu byggingu Áskirkju: Magnús K. Jónsson, húsasmíðameistari, fram yfir fokheldingu, eftir það Sigurður Kr. Árnason, trésmíðameistari, Hafsteinn Júlíusson, múrarameistari, Jónas Valdimarsson, pípulagningameistari, Magnús Lárusson, rafvirkjameistari, Sigurður Ingólfsson, málarameistari og Steinþór Eyþórsson, dúklagningameistari.

Vígsla Áskirkju

Biskup Íslands, herra Pétur Sigurgeirsson, vígði Áskirkju þriðja sunnudag í aðventu árið 1983, sem þá bar upp á 11. desember. Við athöfnina fluttu herra Pétur Sigurgeirsson biskup og Þórður Kristjánsson, sóknarnefndarformaður bænir. Ritningarlestra lásu herra Pétur Sigurgeirsson, biskup, séra Árni Bergur Sigurbjörnsson, sóknarprestur Áskirkju, Helga Guðmundsdóttir, formaður Safnaðarfélags Ásprestakalls, séra Grímur Grímsson, fyrrvarandi sóknarprestur, séra Ólafur Skúlason, vígslubiskup og Kristján Sigtryggsson, organisti Áskirkju. Herra Pétur Sigurgeirsson, biskup prédikaði og séra Árni Bergur Sigurbjörnsson, sóknarprestur flutti ávarp. Kirkjukór Áskirkju söng undir stjórn Kristjáns Sigtryggssonar organista. Hljóðfæraleik önnuðust Guðrún Birgisdóttir á flautu, Gústaf Jóhannesson á orgel, Jón Sigurðsson á trompet, Lárus Sveinsson á trompet, Ragna Gunnarsdóttir á selló og Valur Pálsson á kontrabassa.