Bergmál frá fjarlægum heimi – söngdagskrá 9. maí kl. 18
Tónlist frá Íslandi og Armeníu
Föstudaginn 9. maí 2025 kl. 18, verður söngdagskrá í Áskirkju sem ber heitið: Bergmál frá fjarlægum heimi. Þar mætast tveir heimar tónlistar með mismunandi hefðir sem þó eiga eitt og annað sameiginlegt en þetta eru tónheimar Íslands og Armeníu.
Lucineh Hovanissian frá Armeníu gefur okkur innsýn í tónmál sinnar þjóðar en Armenía á sér langa og merka sögu þar sem mikið hefur varðaveist af gamalli tónlist.
Áhugavert er að bera armensku tónlistina saman við þá íslensku sem verður flutt af Jóhönnu Ósk Valsdóttur mezzósópran og Kór Áskirkju undir stjórn Bjarts Loga Guðnasonar.
Dagskráin hefst kl. 18 og er u.þ.b. klukkustund. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Lucineh Hovanissian frá Armeníu hefur náð góðum árangri í margvíslegri listsköpun t.a.m. myndbanda- og ljóðlist auk tónlistar. Hún hefur gefið út þrjár plötur og einnig unnið tónlist fyrir kvikmyndir, bæði leiknar sem og heimildarmyndir. Lucineh Hovanissian hefur ferðast um Evrópu og Norður-Ameríku með list sína og dvelur nú í Gunnarshúsi við listsköpun, styrkt af Creative Europe (Goethe Institute).
Jóhanna Ósk Valsdóttir hóf ung tónlistarnám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og síðan við Tónlistarskólann í Reykjavík. Framhaldsmenntun sótti hún til Tónlistarháskólans í Stuttgart hvar hún nam við óperudeild skólans. Jóhanna Ósk hefur sungið með ýmsum kórum svo sem Schola cantorum og Kór íslensku óperunnar og komið fram á tónleikum bæði með kórum og sem einsöngvari, innan lands og utan.
Kór Áskirkju flytur margskonar tónlist og heldur tónleika reglulega. Þjóðlagaarfurinn stendur kórnum nærri og því er ánægjulegt að fá að taka þátt í þessari dagskrá ásamt einsöngvurum frá Íslandi og Armeníu.
Bjartur Logi Guðnason hefur verið organisti við Áskirkju og stjórnandi Kórs Áskirkju frá 2017. Hann útskrifaðist með Tónmenntakennarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og Kantorspróf frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum bæði innanlands og utan sem undirleikari og eða stjórnandi.