Viðhald og hreinsun á orgeli stendur yfir
Um þessar mundir er því miður ekki hægt að hlýða á orgel kirkjunnar því unnið er að ástandsskoðun þess og viðhaldi. Orgel Áskirkju er rúmlega 30 ára gamalt, smíðað af P. Bruhn og Sön árið 1993 svo vissulega er kominn tími á viðhald þess. Pípur orgelsins, alls 1086, verða teknar úr hljóðfærinu og hreinsaðar að utan sem innan og einnig verða hreyfanlegir partar hreinsaðir og liðkaðir. Að auki verða smíðaðar sérstakar grindur til að styðja við þær pípur sem ekki hafa getað staðið óstuddar í réttri stöðu en skakkar pípur geta valdið ýmsum vandamálum og jafnvel varanlegum skemmdum. Að lokum verður orgelið stillt svo allar raddir þess hljómi vel saman. Þetta stuðlar að því að hljóðfærið endist og eldist vel og geti orðið komandi kynslóðum til ánægju. Snemma í febrúar (2025) lýkur svo þessari viðhaldsvinnu og þá mun orgelið að nýju senda fagra tóna sína um kirkjuna.